Tap hjá Grindavík eftir tíu sigurleiki | Keflvíkingar gerðu út um grannaslaginn í fjórða leikhluta
Eftir tíu leikja sigurgöngu Grindvíkinga í Subway-deild karla í körfuknattleik voru það Stjörnumenn sem komu í veg fyrir ellefta sigurinn í röð og unnu spennandi leik með einu stigi.
Í nágrannaslag Keflavíkur og Njarðvíkur var allt í járnum fyrstu þrjá leikhlutana en nýbakaðir bikarmeistararnir fóru á kostum í þeim fjórða og höfðu að lokum þrettán stiga sigur.
Stjarnan - Grindavík 91:90
(23:24 25:25 21:19 22:22)
Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar var í járnum allan tímann og spennandi fram á lokasekúndu. Það munaði einu stigi á liðunum þegar síðasti leikhluti fór af stað (69:68) og Stjarnan náði að halda forskoti allan leiklutann, náðu tvívegis sex stiga forystu (77:71 og 86:80) en Grindvíkingar komust upp að þeim aftur án þess að takast að jafna.
Dederick Basile var stigahæstu Grindvíkinga með 22 stig en næstir voru Deandre Kane 17 stig, Daniel Mortensen 16 stig og Ólafur Ólafsson 15 stig.
Keflavík - Njarðvík 127:114
(28:29 29:25 30:33 40:27)
Fyrstu þrjá leikhlutana var leikur Keflavíkur og Njarðvíkur jafn og spennandi en í þeim fjórða skildu leiðir, Keflvíkingar hreinlega settu í yfirgír og skildu granna sína eftir í rykinu.
Eftir þriðja leikhluta var staðan jöfn (87:87) en Keflavík fór í sóknarham í fjórða leikhluta og skoraði 40 stig gegn ráðalausum Njarðvíkingum sem réðu ekkert við bikarmeistarana í þessum ham.
Eins og oft áður var það töframaðurinn Remy Martin sá sem leiddi sigur Keflvíkinga en hann var með 35 stig. Næstir voru Marek Dolezaj með 25 stig, Jaka Brodnik með 20 stig og Sigurður Pétursson með 18 stig.
Hjá Njarðvík var Dwayne Lautier-Ogunleye á svipuðum slóðum og Martin, með 33 stig. Chaz Williams skilaði 23 stigum, Þorvaldur Orri Árnason 21 stig, Maciej Baginski 15 stig og Dominykas Milka 14 stig.